17. mars 2007

17. mars…2007

Í dag var hefðbundinn laugardagur hjá mér í vinnunni…var kominn á skrifstofuna um 8.30 og byrjuð að gera ársreikning og skattframtal.  Á þessum árstíma er það bara svona,  reyndar stundum líka á öðrum, að ég vinn um helgar og oft á kvöldin.

Við erum að vinna mikið af ársreikningum fyrir einstaklinga og fyrirtæki ásamt skattframtölum þannig að þetta er annasamur tími.  

Ég eyði líka oft á tíðum miklu af mínum fasta vinnutíma í bæjarmálin og er þá vinnan oftast eftir þegar hefðbundnum vinnutíma er lokið.  Svona er þetta í sveitarfélögum þar sem ekki er gert ráð fyrir að kjörnir fulltrúar geti lifað á starfi sínu að fólk þannig að fólk sinnir þessu með fullu starfi. 

Lesa meira

16. mars 2007

Margrét Lilliendahl hefði orðið 99 ára í dag.

Margrét Lilliendahl amma Jónasar hefði orðið  99 ára í dag en hún var fædd 1908.  Ég var svo lánsöm að  kynntast Margréti og var hún mikil heiðurs kona.  Hún var ættuð úr Eyjafirði og talaði oft fallega um heimahagana, maður sá glampann í augum hennar þegar hún hugsaði heim.  Margrét var mjög „fín kona“ eins og stundum er sagt,  pjöttuð með eindæmum, gekk alltaf í kjólum  og háhæluðum skóm.  Bar sig eins og hefðarkona, alltaf svo vel til höfð.  Notalegt fannst mér nú að renna við á Birkivöllunum hjá nöfnu minni með strákana litla og þá var alltaf til kaffi og eitthvað með því, pönnukökur eða svona gott ömmu meðlæti.   Ég hafði  mjög gaman af því þegar Gústaf var skírður er hún hafði orð á að sagan væri að endurtaka sig, því nú væru aftur til ung hjón sem bæru nöfnin, Jónas og Margrét,  síðan væri sonur þeirra Gústaf alveg eins og var hjá „okkur Jónasi“ sagði nafna mín.

Lesa meira

16. mars 2007

Útvarp Suðurland

Í dag kl. 17.30 fór ég í viðtal til Valdimars Bragasonar í svæðisútvarpið ásamt Margréti Sigurðardóttur sveitarstjóra Flóahrepps.

Margt var spjallað um sameiginlega verkefni þessara sveitarfélaga td. í skólamálum, en eldri börn úr Flóahreppi hafa um langt skeið stundað skóla á Selfossi. Einnig var rætt um skipulagsmál, Laugardæli og pólitíkina svona almennt. Ef þig langar að heyra smelltu þá á linkinn hér fyrir neðan.

http://dagskra.ruv.is/streaming/selfoss/

Lesa meira

16. mars 2007

Bygginganefnd Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri

Í dag kl. 13.30 hófst fundur bygginganefndar vegna skólabygginganna sem áformaðar eru á Eyrarbakka og Stokkseyri.  Við erum að vinna í áætlunum um fermetrafjölda á hvorum stað, nemendaspá næstu árin og svo framvegis.

Lesa meira

15. mars 2007

Pósturinn lokar á Eyrarbakka og Stokkseyri !

Á fundi bæjarráðs í morgun var tekin fyrir  beiðni Póst- og fjarskiptastofnunar um umsögn um beiðni Íslandspósts um lokun póstafgreiðslu á Stokkseyri og Eyrarbakka –

Ekki hefur verið leitað til sveitarfélagsins um samstarf um þetta verkefni sem er miður þar sem möguleiki er á að hægt sé að koma að verkefninu og leysa það. 

Afgreiðsla bæjarráðs;
Bæjarráði þykir miður að Pósturinn skuli draga úr þjónustu í sveitarfélaginu án samráðs við bæjaryfirvöld og bendir á að aðstaða kann að vera til að sinna þessari þjónustu ef áhugi er fyrir hendi. Sveitarfélagið er reiðubúið til samvinnu um lausn málsins og óskar bæjarráð eftir viðræðum þar að lútandi.

Lesa meira

15. mars 2007

Áframhaldandi samstarf við Fræðslunetið

Á fundi bæjarráðs í morgun var samþykkta áframhald á samstarfi við Fræðslunet Suðurlands um   Vísinda- og rannsóknarsjóð FnS. –

Svona var afgreiðslan;
Jón Hjartarson, V-lista, vék af fundi við afgreiðslu málsins vegna vanhæfis.
Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, kom inn á fundinn sem varamaður.

Bæjarráð samþykkir að framlengja samning um þetta mikilvæga verkefni til næstu 5 ára og hækka árlegt framlag úr 100 þus.kr. í 150 þus.kr. Bæjarráð felur bæjarstjóra af ganga frá samningi í samræmi við þessa ákvörðun.

Jón Hjartarson kom aftur inn á fundinn að afgreiðslu málsins lokinni og Þorvaldur Guðmundsson vék af fundi.

Lesa meira

15. mars 2007

Fimmtudagurinn 15. mars

Í dag er að venju annasamt á skrifstofunni þegar 15 dagur mánaðar rennur upp.  Við erum með mikinn fjölda sem við reiknum laun fyrir og skilum öllum gögnum af.  Þannig að það er ávallt sprettur til að ná í alla fyrir lokun banka.

Kvöldið notaði ég til að ljúka við heimasíðuna mína sem ég er búin að vera með í smíðum um þó nokkurn tíma.  Orðin nokkuð sátt og opna sennilega á morgun.

Lesa meira