|
3. maí 2007
Í morgun hófst fundur í bæjarráði kl. 8.00 og var þar helst þrjú mál, vegna skólabyggingar við ströndina, heimild til bæjarstjóra vegna kaupa á Austurvegi 2a og síðan tillaga um almenningssamgöngur. Hér á eftir koma þessar þrjár samþykktir.
Tillaga um stærð kennslustofa í fyrirhuguðum nýbyggingum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri –
Lesa meira
2. maí 2007
Í gær, 2. maí 2007, var á Eyrarbakka undirritaður samningur um samstarf menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis við 14 sveitarfélög á Suðurlandi um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra undirritaði samninginn f.h. ríkisins en Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga undirritaði samninginn fyrir hönd sveitarfélaganna. Er þetta í fyrsta sinn sem gengið er til slíks samstarfs við Suðurland, en áður hafa verið gerðir sambærilegir samningar við Austurland , Vesturland, Norðurland eystra, Norðurland vestra og Vestfirði.
Tilgangur menningarsamningsins er að efla menningarstarf á Suðurlandi og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaganna við slíkt starf í einn farveg. Jafnframt eru áhrif sveitarfélaga á forgangsröðun verkefna aukin. Menningarráð Suðurlands sem skipað verður fimm fulltrúum verður samstarfsvettvangur sveitarfélaganna og hefur meðal annars það hlutverk að standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum, úthluta fjármagni til menningarverkefna og verkefna á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu á Suðurlandi jafnframt því að annast framkvæmd samningsins. Menningarráðið hefur að auki það hlutverk að samræma aðgerðir á sviði menningarmála á Suðurlandi, skv. sérstökum samstarfssamningi þar um.
Framlög ríkisins til samningsins verða 30 m.kr. á árinu 2007, 35 m.kr. árið 2008 og 36 m.kr. árið 2009 en sveitarfélögin leggja jafnframt fram fé til sameiginlegra verkefna hvort heldur er með framlögum frá einkaaðilum eða með eigin framlögum. Skal við það miðað að árið 2008 nemi framlag sveitarfélaganna a.m.k. 17,5% af þeirri heildarfjárhæð sem veitt er til verkefnastyrkja og 25% árið 2009. Þá skulu sveitarfélögin greiða að lágmarki þriðjung kostnaðar vegna starfsemi Menningarráðsins árið 2008 og helming kostnaðar árið 2009. Gildistími samningsins er til ársloka 2009.
Fulltrúar sveitarfélaganna á Suðurlandi skrifuðu einnig undir samstarfssamning sín á milli um stofnun Menningarráðs Suðurlands í tengslum við menningarsamninginn.
Samninginn er að finna á vef menntamálaráðuneytis, menntamalaraduneyti.is, vef samgönguráðuneytis, samgonguraduneyti.is og á vef Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi. tekið af heimasíðu SASS.
Lesa meira
2. maí 2007
Í dag kl. 15.00 var stjórnarfundur hjá Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga og stóð hann til 15.40 Aðal mál fundarins var að skipa í menningaráð Suðurlands. Fulltrúi Árborgar er Inga Lára Baldvinsdóttir og til vara er Andrés Sigurvinsson. Ég lagði fram fyrirspurnir á þessum fundi vegna endurskoðunar á samtökunum sem fylgir hér. 3. Endurskoðun á stjórnskipulagi SASS og Atvinnuþróunarfélags Suðurlands ,,Sérfræðingur hefur verið ráðinn til að endurskoða SASS, ekki er liðið nema rétt rúmt ár síðan síðustu endurskoðun lauk og er þetta fyrsta starfsárið eftir þær breytingar sem þá voru samþykktar. Ég er nýkomin inn í stjórnina sem varaformaður samtakanna og tel því eðlilegt að spyrja eftirfarinna spurninga vegna þessarar vinnu sem hafin er vegna endurskoðunar á SASS. 1. Hver er ástæðan fyrir því að ráðinn hefur verið sérfræðingur til að skoða stjórnskipulag SASS ? 2. Hefur stjórn heimild aðalfundar fyrir þessari endurskoðun ? 3. Hvert er markmiðið með þessari endurskoðun ? 4. Hver er áætlaður kostnaður við þessa endurskoðun? 5. Er gert ráð fyrir þessum kostnaði í fárhagsáætlun ? “ Gunnar Þorgeirsson lagði fram eftirfarandi bókun sem svar við fyrirspurninni: ,,Vegna fyrirspurnar Margrétar Erlingsdóttur vilja aðrir stjórnarmenn koma eftirfarandi á framfæri. Á aukaaðalfundi SASS í apríl 2006 þar sem farið var yfir breytingar á starfsemi SASS og tengdra stofnana var lagt til að stjórn SASS endurskoðaði starfsmannastefnu allra stofnana. Á grundvelli þessa þótti stjórn nauðsynlegt að skilgreina störf starfsmanna innan SASS, og í framhaldi af þeim umræðum var formanni og varaformanni falið að ræða við AÞS um aðild að vinnunni. Í kjölfarið var samþykkt að ráða til verksins Kristján Vigfússon í samstarfi við AÞS. Ekki liggur fyrir aðalfundarsamþykkt önnur en áður er getið, en í samþykkt síðasta aðalfundar sem haldinn var í Hveragerði í nóvember síðastliðnum, var því beint til stjórnar að skilgreina þann kostnað sem aðrar stofnanir greiða til sameiginlegs rekstrar. Þykir því enn meiri nauðsyn á skilgreiningum starfa innan SASS. Áætlaður kostnaður verkefnisins er um 1 milljón króna og greiðist að helmingi af SASS. Ekki er gert ráð fyrir þessu sérstaklega í fjárhagsáætlun en ekki er gert ráð fyrir útgjalda aukningu aðildarsveitarfélaga vegna verkefnisins.”
Lesa meira
1. maí 2007
Í dag er 1. maí og margt um að vera um allt land. Stéttafélög standa fyrir kröfugöngum og skemmtunum fyrir félagsmenn sína og þá sem taka vilja þátt á þessum hátíðardegi. Ég var komin til vinnu kl. 7.00 í morgun og hlustaði á útvarpið í allan dag meðan ég var að vinna. Mikið var rætt um hátíðarhöldin um allt land og ræður voru fluttar í beinni útsendingu. Þá fór ég að velta fyrir mér hvað er að gerast hér í Árborg í dag ? Hvað hefur verið gert til hátíðarbrigða hér síðustu ár ? Það hefur verið fátt um fína drætti hér á Selfossi á þessum degi um nokkurra ára skeið. Áður var þó kaffisamsæti í hótelinu en nú er bara ekkert um að vera. Þessum degi var þó bjargað hér með fjölskylduskemmtun Samfylkingarinnar, það var vel til fundið hjá þeim að nýta þennan dag til hátíðarhalda. Margt var um manninn á planinu við Inghól og margt til skemmtunar. Húrra fyrir þeim sem gerðu íbúunum dagamun á hátíðardegi verkalýðsins.
Lesa meira
1. maí 2007
Í gærkveldi opnuðu Ungir framsóknarmenn kosningaskrifstofu í sumarhúsi á plani gamla Landsbankans. Þar var margt um manninn og kátt á hjalla . Gústaf minn var þar að spila fyrir gesti og stóð sig vel að mér er sagt vel. Flott hjá unga fólkinu okkar. Áfram X – B
Lesa meira
|
|