|
31. maí 2007
Í morgun hófst fundur í bæjarráði kl. 8.10 og stóð hann fram til kl. 10.35. þetta er lengsti fundurinn sem ég hef setið án þess að gestir hafi komið inn á fundinn. Þetta var fyrsti fundur sem Eyþór Arnalds sat fyrir sveitarfélagið, en hann var að koma til starfa eftir árs leyfi. Á fundinum voru afgreidd þó nokkur þung skipulagsmál og dálítið tekið af fundarhléum og nokkuð var bókað. Endilega kíkið á fundagerðina inn á http://arborg.is , mjög greinilegt er hér í Árborg að skilin eru mikil á milli meiri og minnihluta, það eru því miður ekki mörg mál sem við sameinumst um. Samt erum við öll kjörin til sama verksins til að gera gott sveitarfélag betra. Það hefur orðið mikil breyting á samstarfi í bæjarstjórn á þessu kjörtímabili miðað við það síðasta. Á síðasta kjörtímabili var samstarf minni og meirihluta gott þó að Páll Leó væri vissulega með aðhald og gagnrýni þegar honum fannst þurfa en hann tók ávallt undir og stóð með góðum málum. Páll Leó stóð sig vel sem bæjarfulltrúi og er góður vinur og félagi sem einstaklega ánægjulegt var að vinna með. Sjálfstæðismenn mega vera stoltir af bæjarfulltrúum sínum frá fyrra kjörtímabili þeir stóðu sig vel. Vonandi verða þeir eins stoltir af sínu fólki þegar þessu kjörímabili verður lokið.
Lesa meira
30. maí 2007
Ég fór til vinnu kl. 7.00 í morgun og var að til rúmlega 22.00 í kvöld. Þessir dagar eru langir og strangir hjá okkur á skrifstofunni. Stelpurnar mínar fara flestar heim um fimmleitið en þá eru þær líka búnar að vera á öðru hundraðinu allan daginn. Ég hef verið ótrúlega lánsöm með starfsfólk, er með hörku stelpur sem leggja sig allar fram um að gera vel. Það er mikið lán að hafa að störfum starfsfólk eins og mitt, annars gengu hlutirnir hreinlega ekki upp hjá mér. Ég er oft á tíðum mikið frá vinnu vegna starfa minna fyrir sveitarfélagið, en aldrei þarf ég að hafa áhyggjur af neinu þær sjá um alla hluti af mikilli alúð og samvikusemi, án þeirra gæti ég ekki tekið þátt í þessu pólitíska vafstri.
Lesa meira
29. maí 2007
Þessar síðustu vikur hafa liðið við gerð skattframtala alla daga og fram á kvöld. Nú fer að styttast í lokadaginn og má eiginlega segja að lokaspretturinn sé hafinn. Ég fer til vinnu alla morgna upp úr kl. 7.00 og er þar fram á kvöldið…svona til rúmlega tíu. Þegar þessi lokasprettur er í fullum gangi þá fer manni að hlakka til lokadagsins þó að mér finnist þetta ótrúlega skemmtilegur tími. En þegar vorið og sumarið er að koma þá er líka oft á tíðum mjög erfitt að sitja inni og látast ekki sjá hvað veðrið er fallegt og allt er að lifna. Vorið og sumarið er besti tími ársins finnst mér og sakna ég þess oft að geta ekki notið þess tíma betur en ég geri. Það er aldrei indislegra að fara á hestbak en akkúrat á þessum tíma þegar nóttin er björt og óendanleg. Nú þegar ég á aðeins lítinn garð og hef ekki ástæðu til að nota allt kvöldið í hann og jafnvel fram á nótt eins og ég gerði í Þrastarimanum þá er eins og maður missi af vorinu. En framundan er sumarið og ætlum við að njóta þess hjónin að ferðast um helgar og ganga um landið okkar. Við höfum verið að nýta þennan litla tíma sem við höfum til að fara í göngutúra.. þó þeim hafi fækkað allra síðustu daga. Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga sagði einhverstaðar og þá gerist það að ég hef allan heimsins tíma til að njóta sumarsins. Um miðjan júní þá breyti ég vinnutímanum á skrfstofunni, þá opnum við eins og venjulega kl. 8.00 en lokum klukkutíma fyrr eða kl. 16.00.
Lesa meira
29. maí 2007
Í dag er Stefán Ármann sonur Möggu mágkonu tvítugur. Manni finnst skrítið þegar litlu börnin eru orðin fullorðin og að horfa á þau fullornast án þess að maður eldist sjálfur. Stefán og Gústaf eru jafngamlir og hafa verið vinir frá því þeir fæddust, léku sér saman alla daga nema meðan Stefán bjó í Ólafsvík með mömmu sinni og fjölskyldunni. Stefán hefur alltaf verið léttur og skemmtilegur piltur, uppátæki þeirra félaganna voru oft viðamikil og mis vinsæl hjá foreldrunum. Í dag taka félagarnir gjarnan gítarana sína, spila saman og syngja. Góðir félagar strákarnir okkar allir. Til hamingju með daginn Stefán minn.
Lesa meira
27. maí 2007
Við fórum í gær og keyrðum um alla Tjarnabyggðina, búgarðabyggðina á milli Selfoss og strandarinnar. Ég verð að segja þegar við fórum um vegina langt út í mýri þá var ég eiginlega alveg undrandi yfir þeim tilfinningum sem gripu mig. Þvílíkt útsýni til allra átta ! Fjallahringurinn algjört listaverk, ekki er mögulegt að festa á nokkurri mynd þessa upplifun og þær tilfinningar sem maður getur orðið fyrir við svona aðstæður… Ég tel að í byggðinni sem kennd er við Tjarnir eigi eftir að vera blómlegt og ótrúlega skemmtilegt samfélag fólks sem vill njóta náttúrunnar, fólks sem vill njóta þess að hafa hunda, ketti, hænur, kindur, hesta eða hvaða húsdýr sem er, fólks sem vill hreinlega njóta þess að búa í nánd við annað fólk en ekki alveg í bakgarði nágrannans.
Ætti maður kannski að skoða þessa byggð nánar…. eða hvað….! Væri nú notalegt að hafa hesthúsið og hestana í baklóðinni…..! Ég er töluvert hugsi eftir ferðalag í byggðina sem kennd er við Tjarnir.
Lesa meira
27. maí 2007
Eftirfarandi pistill birtist í Fréttablaðinu 23. maí sl.
Gagnsæjar nafngiftirÁgætisskemmtan getur verið að lesa Lögbirtingarblaðið, sér í lagi þegar kemur að nafngiftum hlutafélaga. Landinn er enda duglegur við að hrinda viðskiptahugmyndum í framkvæmd og eitthvað þurfa börnin að heita. Einhver kynni þó að ætla að betur hefði verið heima setið en af stað farið þegar í blaðinu voru auglýst skiptalok á fyrirtækinu Óráði ehf. Stundum endurspegla nöfn vel starfsemina, eins og félagið Evrópulög hvurs stofnun var tilkynnt í gær. Vinninginn í gær hafði hins vegar nýtt félag á Selfossi að nafninu Erlingus ehf. Ekki var þó að sjá að flugrekstur væri tilgangurinn líkt og hjá Aer Lingusi.
Markaðurinn, 23. maí. 2007 05:00 http://www.visir.is/article/20070523/VIDSKIPTI0802/105230063/-1/VIDSKIPTI08
Lesa meira
27. maí 2007
Við Jónas stofnuðum einkahlutafélagið Erlingus ehf. þann 30. apríl sl. Erlingus ehf. er fasteignafélag sem keypti húsnæði til að leigja bókhaldsstofunni hjá Maddý sf. Við keyptum helminginn af neðri hæðinni á Eyravegi 27, við hliðina á Suðurlandssól, af sumum kallað Magga múr húsið. Við fáum afhent þann 1. júní nk. og þá á eftir að taka húsnæðið í gegn. Stefnt er að flutningum um mánaðarmótin júní / júlí. Mjög spennandi verkefni framundan.
Lesa meira
|
|