Þessi tillaga var samþykkt samhljóða í Bæjarráðinu í morgun.
Lögð var fram tillaga um að óska eftir formlegum viðræðum við Sveitarfélagið Ölfus um breytingu á sveitarfélagamörkum.
Bæjarráð Árborgar samþykkir að óska eftir formlegum viðræðum við bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss um breytingu á sveitarfélagamörkum milli Árborgar og Ölfuss á svæði Árbæjarhverfis. Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi vegna málsins.
Greinargerð:
Sveitarfélagið Árborg hefur í áraraðir veitt íbúum Árbæjarhverfis í Ölfusi leikskóla- og grunnskólaþjónustu skv. sérstökum samningum milli sveitarfélaganna. Nú hafa fulltrúar Ölfuss leitað eftir víðtækara samstarfi og þjónustukaupum af Sveitarfélaginu Árborg. Um er að ræða þjónustu á sviði fráveitu, vatnsveitu og hitaveitu. Ljóst er að með frekari þéttingu byggðar í hverfinu eins og áætlanir gera ráð fyrir eykst þörfin fyrir þjónustu á þessum sviðum og telur bæjarráð Árborgar eðlilegt að óska eftir viðræðum um að Árbæjarhverfi verði sameinað Sveitarfélaginu Árborg í nánustu framtíð.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.