Í dag vöknuðum við í steikjandi hita í Gulllandinu, dagurinn fór nú eiginlega bara í það að sitja í sólinni og gera ekki neitt..
Enduðum daginn í kvöldmat hjá Einari og Ellu Veigu í Egilstaðakoti. Gott kvöld með góðum vinum.
|
||
8. júlí 2007
Í dag vöknuðum við í steikjandi hita í Gulllandinu, dagurinn fór nú eiginlega bara í það að sitja í sólinni og gera ekki neitt.. 7. júlí 2007
Í dag fórum við Jónas í bústaðinn til mömmu og pabba í Gulllandinu. Einnig komu systur mína Hólmfríður og Anna Kristín ásamt mönnum sínum. Við borðuðum góðan mat en skruppum síðan öll ásamt mömmu og pabba upp í Landmannalaugar sem eru einungis „101“ km. frá Hellu um Dómadal. Í Laugunum var Sammi bróðir og Ásta kona hans ásamt vinum sínum í hestaferð. Dásamlega fallegt í Landmannalaugum. 1. júlí 2007
Í dag höfum við verið á ferð og flugi, fórum í bústaðinn til tengdó „Krækishóla“ sem eru í Villingaholtshreppi, kíktum á kofann okkar sem stendur þar í grendinni. Fórum yfir í Merkurlautina og litum við hjá móðursystrum Jónasar, Ástu og Hólmfríði. Þar eru miklar framkvæmdir í gangi við byggingu sumarhúsa og viðbyggingar. Þegar heim kom var móðurbróðir minn Guðjón mættur með stóru klippurnar sínar til að snyrta til trén í garðinum. Tekinn var púlsinn á málefnum ættarinnar og rætt um ættarmótið sem framundan er í Trékyllisvík síðustu helgina í júlí. Þar hittast afkomendur ömmu minnar og hennar systkina og eiga saman helgi á slóðum forfeðranna. 30. júní 2007
Um hádegisbilið fórum við að Stóru Reykjum að sækja Hélu til að koma henni í girðingu hjá graðhesti. Yfirleitt getum við gengið að hrossunum okkar í haganum án vandræða. En svo var nú ekki að þessu sinni. Héla kastaði 16 júní merfolaldi sem nefnt hefur verið Stúlka, þær létu okkur hafa töluvert fyrir sér að þessu sinni. Hryssurnar okkar eru oft styggar þegar þær eru með folöldum og þá er eins gott að vera léttur á fæti til að hlaupa á eftir þeim. Sú var raunin nú en við eltum þær um mýrarnar og tók okkur drjúgan tíma að koma þeim heim. 28. júní 2007
Í hádeginu í dag var aukafundur í bæjarráði þar sem samþykkt var að deiliskipulag af miðbæjarskipulagi yrði auglýst. Málið fer fyrir bæjarstjórn á mánudaginn kemur. 28. júní 2007
Í dag flugu Magný Rós (systurdóttir mín og hægri hendi) og Steinunn Alexandra dóttir hennar til Ísafjarðar og sigla á morgun frá Bolungarvík fyrir Hornbjarg í Látravík. Þær ætla að dvelja í Hornbjargsvita fram á mánudag og ganga þar um með frænkum sínum . Magný Rós er af Reykjafjarðarættinni, afi hennar var Kjartan Jakobsson í Reykjafirði, og eru konur af þessari ætt að fara í annað sinn í Frænkugöngu á Ströndum. Þær fóru einar mæðgurnar að þessu sinni með frænkum sínum þar sem Anna Stína systir mín, Íris og Harpa dætur hennar komust ekki, en við systurnar „Fríða, Inga og ég“ erum ekki af þessari ætt og erum því ekki gjaldgengar í þennan frænkuhóp þó við hefðum svo gjarnan viljað fara…. en svona eru nú þessi ættartengsl flókin stundum.. 27. júní 2007
Í kvöld kom Erlingur minn heim í mat og voru þá strákarnir mínir allir heima í fyrsta sinn í mjög langan tíma. Erlingur er í verkfræðinámi í HR og býr í Kópavogi. Það er mikið að gera hjá honum þannig að fáar stundir gefast til að líta á þau gömlu. En í tilefni af afmæli Gústafs á mánudaginn komu þeir allir heim til okkar í mat.. Dásamlegar stundir þegar þeir eru allir hjá okkur strákarnir, stundir sem verða færri og færri eftir því sem árin líða. |
||
© 2024 Margrét Katrín Erlingsdóttir |