Margrét Lilliendahl amma Jónasar hefði orðið 99 ára í dag en hún var fædd 1908. Ég var svo lánsöm að kynntast Margréti og var hún mikil heiðurs kona. Hún var ættuð úr Eyjafirði og talaði oft fallega um heimahagana, maður sá glampann í augum hennar þegar hún hugsaði heim. Margrét var mjög „fín kona“ eins og stundum er sagt, pjöttuð með eindæmum, gekk alltaf í kjólum og háhæluðum skóm. Bar sig eins og hefðarkona, alltaf svo vel til höfð. Notalegt fannst mér nú að renna við á Birkivöllunum hjá nöfnu minni með strákana litla og þá var alltaf til kaffi og eitthvað með því, pönnukökur eða svona gott ömmu meðlæti. Ég hafði mjög gaman af því þegar Gústaf var skírður er hún hafði orð á að sagan væri að endurtaka sig, því nú væru aftur til ung hjón sem bæru nöfnin, Jónas og Margrét, síðan væri sonur þeirra Gústaf alveg eins og var hjá „okkur Jónasi“ sagði nafna mín.