ágúst 26th, 2007

Grænland ferðasaga fjórði hluti.

 

26. ágúst 2007.

Ég var vöknuð um kl. 8 í morgun, veðrið var mjög gott, þurrt og aðeins vindur. Við hjónin vorum sest að morgunverði þegar Atli kom til okkar um 9,30, rétt á eftir komu litlu hjónin Magga og Jón. Setið var yfir kaffi og meðlæti sagðar sögur og spjallað fram til kl. 11.00. Jón svili minn er alveg hreint ótrúlegur sögumaður. Þegar hann byrjar á sögustundum þá er nú kátt á hjalla, en hann segir sögur með öllum líkamanum og á köflum er mikill sláttur á honum. Atli kom færandi hendi með selskinnsveski, derhúfur merktar flugfélaginu og bók um Grænland handa okkur.

Við fórum að kirkju Hans Egede um kl. 11 en þar stóð yfir brúðkaup og það var nú ansi fróðlegt að sjá fólkið koma út úr kirkjunni í þjóðbúningi Grænlendinga. Karlmenn eru í dökkum buxum og hvítum anorökkum, en konurnar í selskinnsbuxum, blússum með perlusjöl, bæði kynin eru síðan í hnéháum skóm úr skinni. Kvennbúningurinn er mjög fallegur en er víst með eindæmum hlýr…! 

Að loknu brúðkaupinu skoðuðum við kirkjuna sem er mjög falleg, eld rauð að utan en hvít og ljósblá að innan. Altaristaflan var kross einfaldur en fallegur, það er greinilegt að ekki er notaður kaleikur við altarisgöngu hér heldur er raðað staupum við gráturnar í sérútbúna rauf. Í lofti kirkjunnar voru fallegar ljósakrónur úr messing og tvö líkön af bátum eins og er í Eyrarbakkakirkju. 

Við fórum síðan í byggðasafnið til að skoða málma, grjót og fleira sem finnst hér í jörðu og í fjöllunum. Það er mikill málmur í grjótinu hér og var hægt að leggja að steinunum segulstál sem festist við það. Grjótið glitrar og glansar eins og kristallar.
Í safninu er sýnishorn af öllum skinnum sem notuð voru í grænlenskan fatnað og sýnishorn af fatnaði. Fötin voru saumuð saman með skinni sem hafði verið tuggið og teigt í þráð eða að notað var hár af hvölum. 

Það allra merkilegasta í þessu safni eru múmíurnar sem fundist hafa í hellum um landið. Allflestar múmíur sem fundist hafa eru af börnum og konum. Lík þessarra kvenna og barna eru hreint ótrúleg en þau hafa frosið í hel og frostþurrkast. Múmíurnar eru í skinnklæðum og eru ótrúlega raunveruleg. Þetta eru konur sem hafa legið í hnipri sumar með kornabörn í fanginu, konur og börn sem hafa látist þegar karlmaðurinn hefur ekki komið til baka úr veiðiferð. Kuldi og hungur hafa leitt þessar manneskjur til dauða. Hundruðum árum seinna finnast þær ásamt börnum sínum nær heilar utan þess að lífið er horfið.

Við safnið voru handverkskonur að selja grænlenskt handverk og þá hljóp nú á snærið hjá okkur Margréti. Ég keypti þennan líka fallega dúk úr perlum, grænan og hvítan, jólasveina úr selskinni og jólabjöllu úr perlum.

Næst skoðuðum við póstkassa jólasveinsins sem hefur ekki verið tæmdur síðan um síðustu jól og er nú orðinn hálfur, póstkassinn er örgglega einir 5 metar á hæð, 3 metrar á breidd og 1,5 á þykkt. Í kassanum má sjá bréf alls staðar að úr heiminum til Julemannen, North pol, Grönland. Ótrúlega skemmtilegt að sjá en þessum bréfum er öllum svarað og hefur heimastjórnin styrkt þetta verkefni. 

Við fórum í Menningarhúsið og fengum okkur hádegismat. Við borðuðum auðvitað eins grænlenskt og hægt var, sumir fengu hamborgara úr sauðnauti en ég fékk mér Álku. Fínn matur með sterku bragði af villibráð. 
Menningarhúsið þeirra er falleg bygging sem byggð er í samstarfi sveitarfélags, fyrirtækja og almennings. 

Ákveðið var að kaffi skyldi drukkið að Quimerlua 3 , heima hjá Atla og Inge. Þar var setið yfir kaffi og heimabökuðu að hætti húsbóndans, spallað og skrafað fram eftir degi. Í þessu spjalli fengum við sögur af lífi þeirra á Grænlandi, þeirra sem standa okkur svo nærri en eru samt í svo mikilli órafjarlægð. Maður finnur meira fyrir þessari fjarlægð eftir því sem árin líða og maður eldist.

Við fórum á fluggarðana og sátum þar að spjalli ferðalangarnir fjórir, það er margt sem rennur um hugann eftir þessa daga okkar hér í Nuuk með okkar manni og hans fjölskyldu. Maður finnur svo vel á stundu sem þessari hve mikið glatast í fjölskyldum þegar fjarlægðirnar eru svo miklar og samverustundirnar svo fáar, þó að við höfum yfirleitt átt samveru einu sinni á ári. 

En nú hafa þau búið í Nuuk samfellt í 12 ár og við að heimsækja þau í fyrsta sinn. En nú verður auðveldara að hugsa til þeirra þar sem við höfum myndir á bak við líf þeirra á Grænlandi. Við finnum svo vel hve sterk fjölskyldan hennar Inge er og hve vel þau halda utan um hvert annað. Eftir þessa heimsókn tel ég að allir ættu að fara og sækja sér mynd af lífi sinna í fjarlægu landi, það hjálpar manni að sætta sig við fjarlægðina þegar maður getur sótt mynd af heimili, vinnustað og landi.

Við fórum öll saman út að borða á Hereford beefstow á Hans Egede hótel. Veitingastaðurinn var hreint frábær fyrsta flokks nautasteik og tilheyrandi. Áttum yndislegt kvöld saman en við erum að fara heim á morgun. Komum heim um hálf tólf.