Í byrjun ágúst kom til Íslands 16 manna hópur frá Arendal í Noregi og stoppaði á Selfossi í 5 daga. Tilgangur ferðarinnar var að skoða sig um á Suðurlandi í nágrenni Selfoss. Arendal er vinabær Árborgar og í hópnum var Tormod Vågsnes varaforseti bæjarstjórnar í Arendal sem skipulagði ferðina, ásamt eiginkonu sinni og 14 vinum þeirra.
Tormod kom fyrst til Íslands og á Selfoss í maí 2003 á vinarbæjarmót. Í þeirri ferð kynntist hann bæjarfulltrúanum Margréti Katrínu Erlingsdóttur og Jónasi R. Lilliendahl maka hennar. Tormod kom síðan aftur til Íslands og á Selfoss vorið 2004 með konu sína og ein vinahjón til að heimsækja vini sína Margréti og Jónas, þá stoppuðu þau í 4 daga. Á síðasta ári var vinabæjarmót í Arendal, þá fóru Margrét og Jónas á undan öðrum bæjarfulltrúum og voru 5 daga í Arendal áður en vinarbæjarmótið hófst með Tormod og Anne Margrete, meðal annars voru þau í 50 ára afmæli hjá Anne Margrete. Tormod kom síðan til Íslands í október á síðasta ári á fund í Reykjavík en kom við dagstund á Selfossi og skoðaði meðal annars Sunnulækjarskóla. Þessi ferð er því fjórða ferð hans til Íslands á síðustu þremur árum. Tormod heillaðist af Íslandi og ástæðan fyrir því að hann kom með alla þessa vini sína með sér er að honum finnst hann verði að deila þessu einstaka landi með þeim. Hópurinn leigði rútu hjá G.Tyrfingssyni en bílstjórinn var einn úr hópnum. Margrét og Jónas voru með hópnum fyrstu þrjá dagana en þá var farið um söguslóðir á Suðurlandi frá Selfossi og til Víkur í Mýrdal. Fjórði dagurinn var síðan notaður til að skoða Reykjavík og endað í Bláa lóninu á leið á flugvöllinn. Vinabæjarmótin eru því grunnur að góðri vináttu þessara hjóna.