Íþrótta og tómstundastarf blómstrar í Árborg og margt hefur áunnist á kjörtímabilinu. Stefna sveitarfélagsins í íþrótta- og tómstundamálum hefur verið samþykkt.
Gervigrasvellir hafa verið settir niður við Vallaskóla, Sunnulækjarskóla og við skólahúsið á Stokkseyri. Sótt hefur verið um einn völl enn til KSÍ sem staðsetja á við skólahúsið á Eyrarbakka og verða þá gervigrasvellir við alla grunnskóla í Árborg. Hafist hefur verið handa við uppbyggingu á gervigrasvelli í fullri stærð á íþróttavallasvæðinu við Engjaveg sem taka á í notkun í maí nk. Nýr keppnisvöllur, Brávellir, hefur verið tekinn í notkun á svæði Hestamannafélagsins Sleipnis sem hefur gjörbreytt allri aðstöðu félagsins til mótahalds og æfinga. Framkvæmdum við íþróttahús Sunnulækjarskóla hefur verið flýtt þannig að það fylgi öðrum áfanga skólabyggingarinnar í stað þriðja. Íþróttahúsið við Sunnulækjarskóla verður sérhæft fyrir iðkun fimleika, en Fimleikadeild Umf. Selfoss er ein af öflugustu deildum félagsins og hafa hinir fjölmörgu iðkendur hennar búið við erfiðar aðstæður til æfinga mun nýja húsið mun gjörbreyta henni. Hjólabretta aðstaða er á Stokkseyri og á Selfossi en stefnt er að því að koma upp aðstöðu fyrir hjólabrettaiðkendur á Eyrarbakka í vor.
Iða, íþróttahús Fsu
Glæsilegt íþróttahús, Iða, er risið við Fjölbrautarskóla Suðurlands. Það hefur gjörbreytt aðstöðu skólans og gert honum mögulegt að stofna íþróttaakademíu. Síðastliðið haust var stofnuð körfuboltaakademía sem ber hróður skólans um allt land, akademían er samstarfsverkefni skólans, sveitarfélagsins og Sideline Sport. Iða hefur einnig breytt miklu fyrir íþróttaiðkun í Árborg. Húsið hýsir einnig starfsemi Fræðslunets Suðurlands sem rekur metnaðarfulla starfsemi á sviði símenntunar.
Félagsmiðstöðin Zelcius
Starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Zelcius hefur verið efld og hefur notkun hennar stórlega aukist á síðasta ári. Félagsmiðstöðin er vel búin leiktækjum, svo sem til að spila biljard, þythokkí, borðtennis og fleira. Mikið tónlistalíf er innan veggja félagsmiðstöðvarinnar sem mátti best sjá í undankeppni Samfés en 18 atriði voru flutt það kvöld í Hvíta húsinu, og í úrslitakeppninni í Mosfellsbæ lenti hljómsveitin sem keppti fyrir hönd Zelcius í þriðja sæti. Klúbbar fyrir félagsstarf fatlaðra eru starfræktir innan félagsmiðstöðvarinnar, og er hún vettvangur fyrir alla, fatlaða jant sem ófatlaða. Eitt kvöld í viku er félagsmiðstöðin með opið á Eyrarbakka í félagsheimilinu Stað. Mótorsmiðja er starfrækt á Stokkseyri tvisvar í viku og er þar meðal annars gert við mótorhjól. Rútuferðir eru á milli þéttbýliskjarnanna í tengslum við starf félagsmiðstöðvarinnar.
Æskan er auðurinn
Þjónustusamningar hafa verið endurnýjaðir við íþróttafélög og fjármagn aukið til eflingar starfi yngri flokkanna. Stofnaður hefur verið afreks- og styrktarsjóður Árborgar. Í Árborg eru fjölmörg öflug félög sem eru með tómstundastarf fyrir börn og unglinga, má þar nefna Umf. Selfoss, Golfklúbb Selfoss, Björgunarfélag Árborgar, Björgunarsveitin Björg, Skátafélagið Fossbúa og svo mætti lengi telja. Auður hverrar byggðar er æskan og ómetanlegt er að hafa innan sveitarfélagisns öflug félög sem starfrækja þroskandi tómstundastaf fyrir börn og ungmenni.
Margrét Katrín Erlingsdóttir
Bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Árborg