mars 22nd, 2006

Samstarf við Hestamannafélagið Sleipnir.

Í síðustu viku var skrifað undir samstarfssamning á milli Hestamannafélagsins Sleipnis og Sveitarfélagsins Árborgar um uppbyggingu reiðvega samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Árborg mun leggja fram 30 milljónir á næstu átta árum til uppbyggingar þeirra. Hestamannafélagið sækir um mótframlag til reiðveganefndar Landssambands Hestamannafélaga í verkið. Áætlaður kostnaður við uppbyggingu reiðvega samkvæmt útreikningum reiðveganefnar Sleipnis eru tæpar 60 milljónir og leggur sveitarfélagið fram helming af því á næstu 8 árum. Reiðvegur frá Selfossi að Eyrarbakka og Stokkseyri sem lagður verður á vordögum verður sá fyrsti. Þessi uppbygging reiðvega mun hafa mikil áhrif fyrir hestamennskuna í Árborg og gjörbreyta öllum aðstæðum hestamanna til að stunda útreiðar í sveitarfélaginu.

Uppbygging Brávalla

Meirihluti bæjarstjórnar hefur staðið vel að baki Sleipni við uppbyggingu á þessu kjörtímabili. Má þar helst nefna framlengingu á samningi um uppbyggingu á nýju keppnissvæði, Brávöllum, sem byggt hefur verið við Langholt. Brávellir eru í dag eitt besta keppnissvæði landsins og er skeiðbrautin talin ein sú besta á landinu. Á Brávöllum hafa verið haldin stórmót á hverju ári sl.þrjú ár sem er mikil lyftistöng fyrir starf félagsins. Hestamannafélagið hefur staðið að þessari uppbygginu af miklum metnaði og sóma. Nýlega voru keyptir rásbásar frá Danmörku til að nota í kappreiðum, á síðast ári voru haldin þrjú skeiðmót sem þóttu takast mjög vel og verður þeirri mótaröð haldið áfram á þessu ári.

 

Reiðskóli Sleipnis

Sleipnismenn hafa í mörg ár staðið fyrir reiðnámskeiðum fyrir börn á sumrin í samstarfi við sveitarfélagið og þar hefur margur hestamaðurinn hlotið sína fyrstu þjálfun. Hestamannafélagið Sleipnir er með eldri félögum sem starfa innan Árborgar en það var stofnað 1929. Það er mikill hagur í að rótgróin íþróttafélög starfi innan sveitarfélagsins og er Hestamannafélagið Sleipnir eitt af þeim. Því er nauðsynlegt að uppbygging íþróttamannvirkja eins og Brávalla séu gerð af mikilli framsýni. Einnig að uppbygging reiðvega sé skipulögð fram í tímann með það að markmiði að gera öryggi þeirra sem stunda íþróttina sem mest.

Margrét Katrín Erlingsdóttir

Bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Árborg.