Í dag var fundur í skólanefnd Árborgar sem haldinn var á Stokkseyri. Á fundinum var lögð fram skýrlsa vinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Einnig var kynning á fjárhagsáætlun skólans.
Töluverðar umræður urðu um niðurstöðu meirihlutavinnuhópsins vegna húsnæðismálanna. Fundarmenn voru nú ekki allir sammála eins og gengur og gerist, en virða ber skoðanir annarra þó að þær séu nú ekki þær sömu og maður hefur sjálfur. Niðurstöður meirihlutavinnuhópsins voru að byggja ætti nýjan skóla á milli þorpanna, en skýr vilji íbúaþinganna var að skólahald yrði áfram í báðum þorpum.
Ályktun skólanefndar um húsnæðismál BES
Skólanefnd Árborgar hefur yfirfarið skýrslu vinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Nefndin hefur ákveðnar efasemdir um þá lausn sem meirihluti hópsins mælir með, að byggja nýjan skóla á milli þorpanna. Sú lausn gengur gegn þeim vilja íbúanna sem fram kom á íbúaþingi 2003, en þar var lögð rík áhersla á að skólastarf yrði áfram í báðum þorpum.
Skólanefnd mælir með að byggt verði upp fullnægjandi skólahúsnæði í báðum þorpum. Hafist verði handa sem allra fyrst. Skólanefnd mælir jafnframt með að framkvæmdir verði aðeins á öðrum staðnum í einu.
Skólanefnd bendir á að íbúafundur við ströndina gæti verið heppilegur til að kynna niðurstöður skýrslunnar.
Samþykkt samhljóða af öllum kjörnum fulltrúum í skólanefnd Árborgar.