Mánudagurinn 12. desember, Skólanefndarfundur.
Í dag kl. 17.10 er fundur í skólanefnd grunnskóla Árborgar. Aðalefni fundarinn er kynning á deildinni sem reka á í Gaulverjabæjarskólanum. Kristín Hreinsdóttir forstöðumaður Skólaskrifstofu Suðurlands kemur á fundinn til okkar og fer yfir starfsemi þessarar stofnunar
Skólanefndarfundurinn stóð til kl. 19.00 í kvöld. Góð umræða var um deildina sem stofna á í Gaulverjabæjarskóla fyrir börn með hegðunarraskanir. Einnig var samþykkt tillaga skólanefndar um kennslu Tónlistarskóla Árnesinga í grunnskólum Árborgar.
Undir liðnum önnur mál var þetta tekið fyrir : Tónlistarkennsla inni í grunnskólum. Bæjarráð hefur nú tekið undir bókun skólanefndar frá síðasta fundi um að stefnt verði að slíkri kennslu í grunnskólum sveitarfélagsins og gera þurfi ráð fyrir aðstöðu fyrir hana innan skólanna.
Tillaga skólanenfndar:
Bæjarráð fól skólanefnd að vinna áfram að hugmyndum um að tónlistarkennsla Tónlistarskóla Árnesinga verði hluti af samfelldum skóladegi í grunnskólum sveitarfélagsins Árborgar. Skólanefnd leggur til að kennsla á vegum Tónlistarskóla Árnesinga hefjist í húsnæði Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri haustið 2006, haustið 2007 í húsnæði Sunnulækjarskóla og haustið 2008 í húsnæði Vallaskóla. Samþykkt samhljóða.