Vor í Árborg
Í dag opnuðu fjórar sýningar í Hólmaröst. Þeir sem sýna þar eru Elvar Guðni, Valgerður Þóra, Heba og Richi Smith. Einnig kom þar fram Sambaslagverkshópur frá Tónlistaskóla Árnesinga.
Richi Smith sýnir málverk og skúlptúra ýmiskonar og er sýning hans mjög skemmtileg og svona öðruvísi.
Valgerður Þóra sýnir mósaíkverk og eru þau alltaf jafn falleg.
Heba sýnir á vinnustofu sinni keramik og ljósmyndir. Ljósmyndir hennar vöktu strax athygli mína í andyri Hólmarastar og má þar sjá frábærar myndir af Þuríðarbúð.
Elvar Guðni sýnir olímálverk og ýmsa aðra hluti sem hann er að dunda sér við, málað á möppur og steina svo eitthvað sé nefnt. Það er alltaf gaman að koma á sýningu hjá Elvari á vorin og sjá afrakstur vetrarins, maður verður aldrei fyrir vonbrigðum með sýningar hans. Hafið heillar og seiðir mann til sín og það gera málverkin hans Elvars líka.
Sambaslagverkshópur tónlistaskólans var einnig alveg frábær og voru tónleikar þeirra alveg stórgóðir. Saman voru komnir nemendur og kennarar skólans um 25 manna hópur hugsa ég og spiluðu þau öll á ásláttarhljóðfæri. Stefán trommukennari stjórnaði þeim með silkiþráðum.