Við skruppum um kvöldmatarleitið í Reykjarétt að taka á móti safninu af afrétt Flóa og Skeiða. Af fjalli kom, var mér sagt, nálægt 2000 fjár. Safnið var seint á ferðinni enda fé, hestar og menn þreytt og slæpt eftir mjög erfiðan dag.
Fjallmennirnir okkar lentu í miklum raunum í Kálfánni og drukknaði fé í ánni vegna vatnavaxta. Þessi endir á erfiðustu fjallferð í manna minnum var ömurlegur fyrir mannskapinn, menn voru mjög slegnir vegna þessa atburðar. En samt voru allir sammála um að mestu skipti að allir menn komu heilir til byggða, en litlu mátti muna á köflum að ekki yrði stór slys í þessum leitum. Og mikil var raun margra í þessari fjallferð.
Við komum við í Koti á leiðinni heim og fengum okkur kaffi með vinum okkar, Einari og Ellu, börnum þeirra og tengdadóttur. Gott kvöld með góðum vinum.