ágúst 25th, 2007

Grænland ferðasaga þriðji hluti.

 

25. ágúst 2007.

Ég var komin á fætur um 8 leitið og gerði klárt fyrir morgunmat fyrir okkur fjögur. Magga og Jón komu síðan um hálf tíu. Yfir morgunkaffinu var mikið skrafað og var gærdagurinn ofarlega í hugum okkar allra, Narssaq með öllum sínum sjarma en jafnframt með svo skýrum mun á menningarheimum okkar og Grænlendinga. .

Atli kom til okkar um tíuleitið og var fljótlega upp úr því lagt af stað til að skoða menningarlíf og verslanir í Nuuk. Verslanir hér eru eins og víða í heiminum, ekkert endilega margt sem minnir mann á að maður er staddur á Grænlandi nema helst tungumálið sem er með öllu óskiljanlegt. Við fórum þó og skoðuðum verslanir sem eru með grænlenskar vörur og minjagripi. Í þessum verslunum voru vörur úr selskinni, hundaskinni, ísbjarnarskinni, héraskinni og sauðnautsskinni, hlutir gerðir úr perlum og listaverk útskorin úr tönnum og beinum. 
   
Mikið var um að vera í bænum í dag þar sem Nuuk maraþonið stóð yfir, þetta er nú það næsta sem ég hef komist því að taka þátt í maraþoni…! Við skoðuðum vinnustað Inge en hún vinnur fyrir heimastjórnina. 

En margt ótrúlegt getur gerst sem maður á alls ekki von á, við vorum á gangi eftir göngugötunni og allt í einu sé ég hvar Guðjón Arnar Kristjánsson alþingismaður og frændi minn kemur gangandi ásamt Barböru konu sinni… ja mikið vorum við bæði hissa, féllumst í faðma og höfðum á orði..hvern andsk..ert þú eiginlega að gera hér..en Addi frændi var á West norden ráðstefnunni og hafði framlengt til að skoða sig um á Grænlandi.

Við fórum niður að gömlu höfninni þar sem Hans Egede byggði upp á sínum tíma en íbúðarhús hans var fyrsta evrópska húsið sem byggt var á Grænlandi, byggt 1728. Hans kom frá Noregi og hafði mikil áhrif á líf þjóðarinnar með komu sinni, hann flutti inn nýja siði og nýja menningu, að sögn heimamanna mátti finna menningarmun í bænum á milli staða vegna þessa og má enn merkja muninn að þeirra sögn. Við litum inn í byggðasafnið sem er nú eins og byggðasöfn eru um allan heim. 

Þegar við komum út sáum við unga drengi vera að æfa sig á kajökum í sjónum, þeir æfðu snúninga og björgun hvors annar með bátana á hvolfi, snjallir og flinkir strákar. 

Skoðunarferð dagsins endaði á safni Svend og Helene Jung sem er alveg ótrúlegt einkasafn listaverka. Þessi Svend ánafnaði sveitarfélaginu safni sínu og húsi, söfnunarárátta hans hefur verið með eindæmum. Húsið var fullt af málverkum, styttum úr beinum og hornum, ásamt ýmsum listaverkum tengdum grænlenskri sögu. Málverkasafn sem þetta hef ég aldrei séð, myndirnar eru svo lifandi að það er ekki hægt að lýsa því með orðum. Sá listamaður sem greinilega hefur verið í miklu uppáhaldi hjá honum er Emmanuel Petersen sem var danskur og málaði myndir úr sögu grænlensku þjóðarinnar á snilldarlegan hátt. Safnið er fullt af listmunum héðan og mörg unnin af listamönnum frá Grænlandi. Nuuk Kunstmuseum ættu allir að sjá sem leið eiga til Nuuk.

Við fórum nú heim og hvíldum okkur fyrir kvöldið, sumir fengu sér lúr meðan aðrir skrifuðu ferðasöguna. 
Atli og Inge sóttu okkur rétt fyrir klukkan 18.00 en við vorum boðin í mat til foreldra Inge, Nikolaj og Ciselju. Nikolaj var nú kominn heim af veiðum og hafði fangað hreindýr sem við síðan fengum í kvöldmat. 
Okkur var sem sagt boðið uppá hreindýrakjöt í súpu sem var mjög gott og ekki ólíkt kjötsúpunni okkar heima á Íslandi. Ótrúlegt þótti mér þó að setjast að kvöldmat og snæða villibráð sem skotin var 12 tímum áður. 
Hluti af fjölskyldunni kom í kvöldkaffi til að hitta okkur. Fyrir okkur var einstakt að fá að koma inn á ekta Grænlenskt heimili, sem skreytt er að hluta til með skinnum, tönnum og grænlenskum hlutum. 

Nikolaj er bæjarfulltrúi hér í Nuuk og var áður þigmaður í heimastjórninni. Hann er ótrúlega frískur karl þó hann sé að verða sjötugur, hann er svona blanda af eskimóa og indíána, heillandi maður sem ber greinilega mikla respekt fyrir landi sínu og hefur alla tíð lifað með landinu. Ciselja er svona ekta húsmóðir sem stjanar við sína og telur það sitt hlutverk. Fjölskylduböndin eru greinilega mjög sterk og samband þeirra allra kærleiksríkt. Við áttu frábæra kvöldstund á Radiofjallinu með fjölskyldunni Heinrick.

Á heimleiðinni keyrði Atli með okkur um bæinn og sýndi okkur háskólann, framhaldsskólann, íþróttahöllina, íþróttavellina, grunnskólana og leikskóla. Háskólanámi og iðnnámi er dreyft milli bæjanna til að styrkja byggðirnar, til dæmis er allt nám tengt hjúkrun kennt í Nuuk meðan td. Bifvélavirkjun er kennd í bæ sem er í nær 300 km fjarlægð