Í morgun hófst fundur í bæjarráði kl. 8.00 og var þar helst þrjú mál, vegna skólabyggingar við ströndina, heimild til bæjarstjóra vegna kaupa á Austurvegi 2a og síðan tillaga um almenningssamgöngur. Hér á eftir koma þessar þrjár samþykktir.
Tillaga um stærð kennslustofa í fyrirhuguðum nýbyggingum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri –
Svo hljóðandi tillaga var lögð fram:
Bæjarráð samþykkir að miða stærð kennslustofa við 20 nemendur í bekk. Gert verði ráð fyrir að við hönnun bygginga verði ákveðinn sveigjanleiki innbyggður í húsnæðið og stærð kennslurýma geti því að einhverju leyti tekið mið af tíðaranda hverju sinni. Gera má ráð fyrir að skólabygging af því tagi geti rúmað 200 – 250 nemendur.
Greinargerð:
Í fundargerð byggingarnefndar Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri frá 16. mars s.l. er því beint til bæjarráðs að taka ákvörðun um hvort stærð kennslustofa í nýju húsnæði skuli miðast við 20 nemendur í bekk eða 25. Áætla þarf því hvort skólinn skuli ætlaður 200 eða 250 nemendum. Íbúafjölgun á Eyrarbakka og Stokkseyri s.l. tíu ár hefur verið 9,4 % sem jafngildir tæplega einu prósenti á ári. Ef sama hlutfall verður í fjölgun íbúa þá verða nemendur orðnir 200 eftir 20 ár, en sé þegar í hönnuninni gert ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika má áætla að skólinn gæti tekið við nokkuð fleiri nemendum. Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Tillaga um að bæjarstjóra verði heimilað að ganga til viðræðna við eiganda austurhluta Austurvegar 2a á Selfossi um kaup á fasteigninni. –
Lögð var fram tillaga meirihluta B-, S- og V- lista um að bæjarstjóra verði heimilað að ganga til viðræðna við eiganda austurhluta Austurvegar 2 a á Selfossi um kaup á fasteigninni.
Greinargerð:
Austurvegur 2 a ( Pakkhúsið ) er nú í eigu Borgarþróunar ehf. (76,26 %) og Gunnars B. Guðmundssonar (23,74 %). Húsið er inni á miðbæjarsvæði, en vinna á vegum sveitarfélagsins við gerð framtíðar deiliskipulagstillögu af því svæði er nú á lokastigi. Það er mikilvægt fyrir skipulag og uppbyggingu þessa svæðis að sveitarfélagið eignist þann hluta Austurvegar 2 a sem til sölu er og því er lögð fram tillaga um að bæjarstjóra verði heimilað að ganga til viðræðna fyrir hönd sveitarfélagsins um kaup á eignarhlut Gunnars B Guðmundssonar.
Snorri Finnlaugsson, D-lista, lagði fram eftirfarandi tillögu:
Ég legg til að afgreiðslu verði frestað þar til skýrari niðurstaða liggur fyrir um nauðsyn þess að sveitarfélagið eignist fasteignina. Tillaga fulltrúa D-lista var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði fulltrúa D-lista.
Tillaga meirihlutans var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum gegn atkvæði fulltrúa D-lista. Snorri Finnlaugsson, D-lista, lagði fram bókun sjá fundagerð.
Almenningssamgöngur – tillaga um að leitað verði leiða til að koma á almenningssamgöngum innan Árborgar og milli Árbogar og höfuðborgarsvæðisins. –
Lögð var fram svohljóðandi tillaga meirihluta bæjarstjórnar:
Bæjarráð felur bæjarritara að skoða mögulegar leiðir til að koma á almenningssamgöngum innan sveitarfélagsins og bættum samgöngum milli Árborgar og höfuðborgarsvæðisins. Stefnt skal að því að setja í gang tilraunaverkefni um almenningssamgöngur frá og með næsta hausti fáist til þess tilskilin leyfi frá opinberum aðilum. Niðurstöðu verði skilað til bæjarráðs í síðasta lagi 1. júní n.k. Leitað verði samráðs við eftirtaldar nefndir sveitarfélagsins: atvinnuþróunarnefnd, skipulags- og bygginganefnd, umhverfisnefnd og vinnuhóp um samgöngur vegna tómstundastarfs.
Greinargerð
Eitt af forgangsmálum meirihluta B, S og V lista í Árborg eru almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins og á milli Árborgar og höfuðborgarsvæðisins. Almenningssamgöngur eru mikið hagsmunamál fyrir íbúa í dag hvað varðar búsetugæði sem og framtíðina, m.a. hvað varðar aðgerðir til að draga úr mengun. Þess má geta að á fundi í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 27. apríl s.l. var lögð fram yfirlýsing undirrituð af formanni sambandsins og samgönguráðherra um aukna áherslu á almenningssamgöngur.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.