Meirihluti bæjarráðs ákvað í morgun að ganga til samstarfs við Félag aðstandenda alzheimersjúklinga um rekstur dagvistar fyrir heilabilaða –
Lagt var fram svohljóðandi svar við fyrirspurn bæjarfulltrúa D-lista vegna úrræða fyrir alzheimarsjúklinga:
Bæjarstjóri hefur á undanförnum þremur mánuðum átt fundi og símtöl við fulltrúa FAAS (Félags aðstandenda alzheimersjúklinga). Fulltrúar félagsins hafa jafnframt komið á fund með fulltrúum meirihlutaflokkanna vegna málsins. Tilgangur viðræðnanna hefur verið að kanna grundvöll fyrir samstarf sveitarfélagsins og aðstandendafélagsins um að koma á fót dagdvöl í Árborg fyrir alzheimersjúklinga. FAAS hefur lýst vilja sínum til að reka slíka þjónustu á Selfossi ef sveitarfélagið leggi til húsnæði sem henti til starfseminnar. Sækja þarf um daggjöld til heilbrigðisráðuneytisins. Hugmyndin er sú að félagið myndi sækja um í sínu nafni og sjá um daglegan rekstur.
Samræður þessar hafa leitt til þeirrar niðurstöðu meirihluta B, S og V lista í bæjarstjórn Árborgar að hann telur ákjósanlegt og raunhæft að hefja samstarf við FAAS um að koma á fót dagdvöl af þessu tagi fyrir 15 einstaklinga í sveitarfélaginu. Jafnframt verði nágrannasveitarfélögum kynnt þessi áform og boðin þátttaka í verkefninu. Áætlað er að fela bæjarstjóra umsjón með frekari úrvinnslu málsins fyrir hönd sveitarfélagsins.
Meirihluti bæjarráðs lagði fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti bæjarráðs samþykkir að hafinn verði formlegur undirbúningur að samstarfi milli sveitarfélagsins og FAAS um að koma á fót dagdvöl fyrir alzheimersjúklinga í Sveitarfélaginu Árborg. Bæjarstjóra er falið að rita bréf til heilbrigðisráðuneytis þar sem fram komi að Árborg muni leggja til húsnæði fyrir starfsemina. Bæjarstjóra, ásamt framkvæmdastjórum sviða er falið að vinna málinu framgang í samráði við bæjarráð.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, bæjarfulltrúi D-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Ég fagna þessu skrefi meirihlutans og að fólk sé nú upplýst um vilja hans. Meirihlutinn er í þessu máli samstíga bæjarfulltrúum D-lista sem hafa lagt fram tillögu um samstarf við FAAS í þrígang frá því í desember.
Margrét K. Erlingsdóttir, B-lista, óskaði eftir að bókað yrði: Sveitarfélagið Árborg býr yfir miklum mannauði. Því vill meirihluti bæjarráðs benda á að fleiri en sjálfstæðismenn geta unnið góð verk.