Í dag fór ég til vinnu 6.45 og kom heim um kl. 18.00. Aldrei þessu vant var enginn fundur í dag sem er nú orðið frekar sjaldgæft hjá mér. Marinó Geir fór í skólann á bílnum mínum og er ákveðið frjálsræði hjá okkur báðum eftir að hann fékk bílpróf. Ég get byrjað að vinna fyrr á morgnanna og hann fer síðan á bílnum í skólann. Hann launar vel fyrir sig strákurinn og nú er bíllinn minn stíf bónaður og fínn.
Þessa dagana er erill á skrifstofunni, margur leggur leið sína til okkar til að koma með skattagögnin sín til vinnslu. Þessi tími skattframtala finnst mér alltaf einn sá skemmtilegasti í vinnunni þar sem mér finnst einstaklega skemmtilegt að gera skattframtöl. Mörgum finnst þetta vera hálf bilað hjá mér en svona eru áhugamálin misjöfn hjá fólki.
Mikil veðurblíða var í dag og fannst mér eins og vorið væri að koma, vonandi er kuldakaflanum lokið og sólin fari að verða oftar á lofti og lengur.