janúar 30th, 2007

Ræða um fjárhagsáætlun 2007.

 

Forseti, ágætu bæjarfulltrúar og gestir.

Hér er til fyrri umræðu fjárhagsáætlun sveitarfélagins Árborgar vegna ársins 2007. Þegar vinna hófst við gerð fjárhagsáætlunar var strax ljóst að ekki væri einfalt að koma öllum rekstrarþáttum heim og saman. Rekstur sveitarfélagins hefur aukist ár frá ári, nýjar stofnanir hafa tekið til starfa, grunnskólar stækka og þjónustan eykst. Fjármál sveitarfélaga á Íslandi eru allmennt erfið og má þar að hluta til kenna um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Ef skoðað er rekstrarumhverfi sveitarfélag þá er það ríkisvaldið sem setur lögin og kvaðirnar á sveitarfélögin og sjaldnast fylgja fjármunir með breytingum á lögum og reglugerðum. Þegar þröngt er í búi verða menn að skoða alvarlega hvar möguleiki er á sparnaði og ber okkur skilda til að velta fyrir okkur þjónustuþáttum sveitarfélagsins, skoða hvað er lögbundið og hvað ekki.

Sveitarfélagið Árborg er eitt af vinsælustu sveitarfélögum landsins þegar kemur að vali til búsetu. Þjónusta sveitarfélagsins er með því besta sem gerist á Íslandi.

Þjónustugjöld sveitarfélagsins hækka um 5% á milli ára og er um verðlagshækkun að ræða. Almenn verðlagshækkun er töluvert hærri en 5% og eru sveitarfélög víða um land að hækka töluvert meira en hér er gert. Helst vildum við í meirihlutanum sleppa öllum hækkunum en því miður er það ekki hægt hér frekar en annarsstaðar.

Í leikskólum sveitarfélagsins starfa metnaðarfullir starfsmenn og er starf skólanna til mikillar fyrirmyndar.

Á síðasta ári voru teknar í notkun níu nýjar deildir í leikskólunum Hulduheimum, Álfheimum og Árbæ.

Ný pláss í leikskólum á síðasta ári voru alls 193, og er nú í fyrsta sinn um langan tíma framboð leikskólaplássa umfram eftirspurn, en í Hulduheimum eru laus 30 pláss og 9 pláss í öðrum leikskólum sveitarfélagsins.

Til að bregðast við þessari stöðu hefur verið tekin ákvörðun um að loka einni deild á leikskólanum Hulduheimum fram á haustið. Nokkrir starfsmenn voru með tímabundna ráðningu, til 3ja mánaða, og fá því miður ekki áframhaldandi ráðningu auk eins deildarstjóri sem var endurráðinn sem leikskólakennari. Breytingar sem þessar eru ávallt erfiðar öllum sem að þeim koma og var þessi ákvörðun okkur erfið en stundum eru hlutirnir þannig að maður verður að gera fleira en gott þykir.

Í hvert sinn sem tekin er í notkun ný leikskóladeild eykst rekstrarkostnaður sveitarfélagsins og eru viðbætur síðasta árs í auknum rekstarkostnaði leikskóla sveitarfélaginu erfiðar. Hlutfall sem foreldrar greiða í rekstrarkostnaði leikskólans luHlu er 28% og sveitarfélagsins 72% .

Í skoðun hefur verið að lækka aldur barna við upphaf leikskólagöngu úr tveggja ára niður í 18 mánaða. Allir meirihlutaflokkarnir höfðu þetta á stefnuskrá sinni í síðustu kosningum. Því miður verður að fresta þessari breytingu um tíma þar sem að ekki er svigrúm til þessa í fjárhagsáætlun sveitarfélagins.

Ákvörðun hefur verið tekin um að samræma opnunartíma allra leikskóla sveitarfélagsins og verður Brimvers á Eyrarbakka framvegis opnað kl. 7.45 í stað 7.30.

Áfram verður greitt framlag með börnum hjá dagmæðrum frá fæðingarorlofi og fram að leikskóla.

Mjög lítil notkun hefur verið á gæsluvellinum við Dælengi síðustu ár og hefur verið tekin ákvörðun um að hætta rekstri hans frá 1. mars nk. og selja húsið sem þar er til flutnings.

Grunnskólar Árborgar eru sterkar stofnarnir sem hafa á að skipa góðu starfsfólki sem starfar að metnaði við að gera góða skóla betri.

Í uppbygginu grunnskóla í Árborg er það helst að nefna að á árinu lýkur seinni áfanga á byggingu Sunnulækjarskóla og bygging hefst á nýjum grunnskóla á Eyrarbakka. Tekin hefur verið ákvörðun um að áfangaskipta uppbyggingu á Eyrarbakka svipað og gert hefur verið í Sunnulæk

Skólaþróunarsjóður Árborgar verður endurvakinn og er framlag í hann að upphæð kr. 1. milljón.

Menningarsjóður barna fær eina milljón til ráðstöfunar, en honum er ætlað að kynna börnum frá 5 ára – 16 ára menningu í heimabyggð.

Stefnt verður að því að koma á lengri viðveru fatlaðra barna frá næsta hausti. Verður tíminn fram á haustið notaður til að skipuleggja með hvaða hætti þjónustan verður veitt og hver þörfin er.

Í Vallaskóla og Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri er um að ræða 3% niðurskurð í þjónustu og vörukaupum. Einnig er niðurskurður á launaliðum leik- og grunnskóla að upphæð kr. 16 milljónir króna.

Starfandi er vinnuhópur til að skoða mötuneyti allra grunn- og leikskóla. Í dag er keyptur matur af verktaka í einn grunnskóla og tvo leikskóla, þessi lausn er óhagstæð fyrir sveitarfélagið og leitum við leiða til að vinna úr henni.

Ekki stendur til að loka bókasafninu á Eyrarbakka eins og var í umræðunni í fjárhagsáætlun fyrri meirihluta, heldur að þegar nýja bygging Barnaskólans verður tekin í notkun á Eyrarbakka að þá verði bókasafnið flutt inn í skólann og starf þess eflt.

Í menningarmálum eru ekki miklar breytingar en þó ein sem er erfið og sársaukafull en það viðkemur hátíðinni Vor í Árborg sem starfrækt hefur verið af miklum metnaði síðustu ár. Þar hefur af öðrum ólöstuðum staðið fremst í flokki Inga Lára Baldvinsdóttir sem hefur komið þessu verkefni áfram af mikilli hugsjón og verður henni seint fullþakkað framlag sitt til samfélagsins okkar.

Tekin hefur verið sú ákvörðun að halda ekki hátíðina Vor í Árborg í ár. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þröngt er í búi og eru þá fyrst skoðuð verkefni sem ekki eru lögbundin. Stefnt er að því Vor í Árborg verði haldin vorið 2008, en tíminn þangað til verði nýttur til að fara markvisst yfir verkefnið, sett fram markmið og áætlun gerð um framkvæmdina.

Eins og þið heyrið verður töluvert tekið á þetta árið í rekstri sveitarfélagsins og verða allir að leggjast á eitt til að markmiðum verði náð.

Í málefnasamningi meirihlutans kemur fram að við ætlum að treysta fjölskylduvænt velferðarsamfélag í Árborg og sjá til þess að íbúar njóti jafnræðis og góðrar þjónustu. Við leggjum áherslu á örugga og ábyrga fjármálastjórnun, áætlanagerð og forgangsröðun verkefna. Leiðarljósin í okkar vinnu verða félagslegt réttlæti, skilvirk stjórnsýsla og samráð við íbúana.

Árborg er sveitarfélag í fremstu röð og svo verður áfram með ábyrgðir og styrkri stjórn meirihluta bæjarstjórnar.