desember 12th, 2006

Ofurlaun bæjarfulltrúa !

 

Eftir fréttaflutning undanfarinna daga um launakjör mín sem bæjarfulltrúa ofbýður mér þær villandi upplýsingar sem fulltrúar sjálfstæðismanna hafa haldið fram og tel mig knúna til að leiðrétta þær. Hið rétta í málinu er að bæjarfulltrúar fyrri meirihluta voru að ræða leiðréttingar á launum kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn og formanna stærstu og þyngstu nefnda sveitarfélagsins. Bent skal á að sjálfstæðismenn tóku undir þessar tillögur, en nú er auðvitað komið annað hljóð í þá þar sem þeir þurfa að finna eitthvað til að breiða yfir vinnubrögð sín í öðrum málum. Nú skal blekkja íbúana með tilbúningi um kröfur mínar um stórfellda launahækkun.

Launin mín í dag.

Mín laun eru ekkert leyndarmál, ég hef föst laun sem bæjarfulltrúi sem eru þau sömu og allir aðrir bæjarfulltrúar hafa. Í föst mánaðarlaun hef ég kr. 113.142-, sem varaformaður bæjarráðs hef ég kr. 37.714- eða alls kr. 150.856- Ég hef einnig verið formaður skólanefndar en þar eru greidd laun fyrir hvern fund sem er haldinn og er formlega bókaður, kr. 23.571-. Ég get því haft í mánaðarlaun kr. 174.427- ef ég held fund í skólanefnd.

Tillögur frá báðum flokkum

Tillögur voru um að greiða útlagðan bifreiða- og símakosnað þessara aðila jafnframt því að hækka laun þeirra í samræmi við vinnuframlag.

Tillögur B-listans voru að hver bæjarfulltrúi fengi greiddar kr. 5.000- í símakostnað og kr. 20.550- í bifreiðakostnað á mánuði. Að bæjarráðsmaður fengi kr. 27.400- í bifreiðakostnað á mánuði en sama símakostnað. Að formenn stærstu nefndanna fengju greitt kr. 5.000 í símakostnað og kr. 6.850- í bifreiðakostnað á mánuði.

Tillögur sjálfstæðismanna voru að hver bæjarfulltrúi fengi greiddar á mánuði kr. 5.000- í símakostnað og kr. 13.700- í bifreiðakostnað. Að bæjarráðsmaður fengi kr. 20.550- í bifreiðakostnað og 10.000 í símakostnað á mánuði. Að formenn stærstu nefndanna fengju greitt kr. 5.000- í símakostnað og kr. 6.850- í bifreiðakostnað á mánuði.

Tillögur B-listans voru að laun bæjarfulltrúa væru óbreytt en laun til forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráð hækkuðu um kr. 33.000 á mánuði eða í kr. 221.571- að fulltrúar í bæjarráði hækkuðu um kr. 33.000- eða í kr. 70.314- að formenn stærstu nefndanna hækkuðu um kr. 23.572- eða í kr. 47.143-

Tillaga sjálfstæðismanna voru að laun bæjarfulltrúa væru óbreytt, en laun forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs hækkuðu um kr. 23.571- á mánuði eða í kr. 212.142- að fulltrúar í bæjarráði hækkuðu um kr. 18.857- eða í kr. 56.571- að formenn stærstu nefndanna hækkuðu um kr. 11.786- eða í kr. 35.357-

Eigið framlag kjörinna fulltrúa ?

Bæjarfulltrúar og formenn nefnda hafa ekki fengið greiddan símakostnað, bifreiðakostnað eða annan kostnað sem fellur á þá vegna starfa sinna. Tillögur okkar framsóknarmanna voru að sá kostnaður sem þeir eru að leggja fram dag hvern úr eigin vasa yrði greiddur. Kannski er það ósanngjarnt að mati einhverra en ekki getur talist eðlilegt að kjörnir fulltrúar hverjir sem þeir eru gangi á eigin sjóði til að sinna starfi sínu fyrir sveitarfélagið.

Hvað hefðu launin til mín hækkað

Við þessar breytingar hefðu mín laun farið úr kr. 150.856- í kr. 183.856- samkvæmt tillögu B-lista, og í 169.713 samkvæmt tillögu D-lista. Ef ég held skólanefndarfund hefðu þau farið úr kr. 23.571- í kr. 47.143- samkvæmt tillögu B-lista og í kr. 35.357- samkvæmt tillögu D-lista. Til greiðslu vegna útlagðs kostnaðar hefði ég fengið samkvæmt tillögu B-lista sem bæjarfulltrúi og bæjarráðsmaður kr. 32.400- en kr. 30.550- samkvæmt tillögu D-lista. Á bak við hvern fund formanns skólanefndar liggur að minnsta kosti eins til tveggja daga vinna, að auki sækir formaðurinn hina ýmsu fundi í stjórnsýslunni sem ekki er greitt fyrir. Innifalið í launum bæjarfulltrúa og varaformanns bæjarráðs eru allir tilfallandi fundir og ráðstefnur sem sóttar eru.

 

Svigrúm allra til þátttöku mikilvægt

Í mínum huga er það mjög dýrmætt að fá að starfa sem bæjarfulltrúi í mínu sveitarfélagi og er ekki að skorast undan þeirri ábyrgð. Sveitarfélagið Árborg er ört vaxandi sveitarfélag og sífellt eykst starf bæjarfulltrúa og nefndarformanna. Það er mjög mikilvægt að greiða kjörnum fulltrúum fyrir sitt vinnuframlag að öðrum kosti stöndum við frammi fyrir því að einungis þeir sem eru vel stöndugir fjárhagslega bjóði sig fram til starfa. Það er von mín að með þessum upplýsingum sé ykkur íbúar góðir ljóst að sá fréttaflutningur sem hefur verið í gangi er rangur.

Margrét Katrín Erlingsdóttir

Bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.