Þessa dagana er mikið í umræðunni hvar eigi að byggja upp nýtt skólahús fyrir Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þessi umræða er nú ekki alveg ný af nálinni því að úrbætur í húsnæðismálum skólans hafa verið í skoðun um þó nokkurn tíma. Ástæðan fyrir því að ekki er búið að leysa þennan brýna vanda er að nú er í byggingu nýr grunnskóli á Selfossi, Sunnulækjarskóli. Um síðustu helgi var boðinn út seinni áfangihans ásamt íþóttahúsi. Sveitarfélaginu er ekki mögulegt að byggja nema einn grunnskóla í einu.
Margt hefur verið skoðað í þessu máli, skýrsla kom út 2003 þar sem húsnæðismálin voru tekin útÍ henni kemur fram hvað hver hugmynd muni kosta. Hugmyndir sem fram koma í þeirri skýrslu eru; uppbygging á báðum stöðum, uppbygging á Eyrarbakka eða á Stokkseyri, eða ný bygging. Á íbúaþingum sem haldin voru í desember 2003 kom fram skýr vilji íbúa um að halda skólunum í bæjunum. Nú nýverið var lögð fram niðurstaða vinnuhóps um framtíðarhúsnæði skólans. Í þeim hóp voru íbúar, skólafólk ogskólanefndarfulltrúar. Niðurstaða meirihluta hópsins eða 14 á móti 4 var að byggja nýjan skóla á milli þorpanna. Þessi niðurstaða er algjör andstaða við niðurstöðu íbúaþinga. Skólanefnd hefur fjallað um niðurstöðu hópsins og ályktað í málinu, að byggja eigi fullnægjandi aðstöðu fyrir skólann í báðum þorpum. Ekki eru allir á eitt sáttir við þessa ályktun nefndarinnar, þar sem hún er ekki sú sama og vinnuhópsins. En svona er það að búa í ríki lýðræðis, þar geta skoðanir verið skiptar og er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það.
Þegar ég lít yfir málið í heild sinni þá get ég alls ekki séð fyrir mér þorpin við ströndina án skóla, því að nýr skóli á milli þorpa er ekki skóli í þorpunum. Í nýsamþykktu aðalskipulagi er gert ráð fyrir íbúaþróun við ströndina yfir 1000 manns í hvorum bæ, með þessari aðgerð væri búið að gera bæina skólalausa og ekki mögulegt þó að íbúum fjölgi að vera með heildstæðan skóla á báðum stöðum. Þegar fólk er að velja sér búsetu þá er þetta eitt af því sem horft er á, er skóli og hvernig er hann. Ef viðlítum í eigin barm og setjum okkur í spor þess sem er í þessum hugleiðingum, myndum við setjast að í skólalausum bæ með börnin okkar þegar í næsta nágrenni eru bæir þar sem eru skólar ?
En eitt er þó alveg ljóst þegar fjallað er um skóla, skólabyggingar, skólastarf eða einhverjar ákvarðanir eða breytingar tengdar skólastarfi þá eru skoðanir og tilfinningar fólks skiptar. Mín tilfinning hefur alltaf verið sú að íbúar við ströndina vilji hafa skóla í báðum þorpum, með fullnægjandi aðstöðu á báðum stöðum. Að mínu mati er það farsælasta lausin til framtíðar litið með hag allra íbúa að leiðarljósi. En auðvitað er þetta bara mín skoðun hvort sem hún er að þínu mati rétt eða röng.