janúar 9th, 2006

Litið yfir farinn veg, annar hluti.

Íþrótta og tómstundastarf blómstrar í Árborg og margt hefur áunnist á kjörtímabilinu. Glæsilegt íþróttahús er risið við Fjölbrautarskóla Suðurlands. Það hefur gjörbreytt aðstöðu til íþróttaiðkunar í Árborg. Húsið hýsir einnig starfsemi Fræðslunets Suðurlands sem rekur metnaðarfulla starfsemi.

Gervigrasvellir hafa verið settir niður við Vallaskóla, Sunnulækjarskóla og við skólahúsið á Stokkseyri. Stefnt er því að fjórði völlurinn verði við skólahúsið á Eyrarbakka. Hafist hefur verið handa við gervigrasvöll í fullri stærð á íþróttavallasvæðinu við Engjaveg sem taka á í notkun í maí nk. Nýr keppnisvöllur hefur verið tekinn í notkun á svæði Hestamannafélagsins Sleipnis. Framkvæmdum við íþróttahús Sunnulækjarskóla hefur verið flýtt þannig að það fylgi öðrum áfanga byggingarinnar í stað þriðja, stefnt er að því að sérhæfa húsið fyrir iðkun fimleika. Starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Zelcius hefur verið efld og notkun hennar stórlega aukist á síðasta ári. Þjónustusamningar hafa verið endurnýjaðir við íþróttafélög og fjármagn aukið til eflingar starfi yngri flokkanna.

 

Í málefnum aldraðra hefur farið fram metnaðarfull stefnumörkun. Mikilvægt er að þjónusta við aldraða sé góð enda er það kynslóðin sem markaði veginn fyrir okkur. Þjónusta við aldraða er bæði á hendi sveitarfélaga og ríkis, þannig að um samstarfsverkefni er að ræða í mörgum þáttum. Sú þjónusta sem sveitarfélagið veitir hefur verið efld til muna. Meðal annars heimaþjónustan til að gera öldruðum mögulegt að vera heima eins lengi og kostur er, aðstaða dagdvalar aldraðra hefur verið stækkuð og rýmum fjölgað, sólarhringsþjónustu hefur verið komið á í Grænumörk til að auka öryggi íbúa þar. Leigubílaþjónusta var tekin upp til að auðvelda öldruðum að sækja félagsstarf og heilbrigðisþjónustu. Barist hefur verið fyrir fjölgun hjúkrunarrýma í Árborg af fullum krafti, heilbrigðisyfirvöld hafa verið beitt miklum þrýstingi. Því miður hefur það ekki borið árangur enn sem komið er, en við munum berjast áfram enda er ástand í hjúkrunarheimilismálum óviðunandi eins og þau eru í sveitarfélaginu.

En hvort að við eigum að byggja dvalarheimili aldraðra er ekki gott að segja, mörgum finnst alveg nauðsynlegt að þær stofnanir séu til, en kannanir sýna að aldraðir vilja fá að vera heima eins lengi og mögulegt er, svo framanlega þeir geti fengið aðstoð við viðhald húss, garðs og þjónustu heim eins og þeir þurfa. Tímarnir hafa breyst mikið frá því að ég var barn, en á heimili foreldra minna bjó langafi minn, af því hefði ég ekki viljað missa þegar ég horfi til baka. En í dag dettur fáum í hug að búa með foreldrum sínum eða öfum og ömmum, þó að vissulega hefði yngri kynslóðin gott af því. En tímarnir hafa breyst og mennirnir með.

Okkur ber að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, ekki bara í orði heldur líka í verki. Ég tel að margt megi gera til að gera öldruðum mögulegt að vera virkari þegnar lengur, meðal annars með breytingu á skattkerfi landsins. Ég gæti séð fyrir mér að eftir 67 ára aldur væri gefinn möguleiki á því að aldraðir gætu stundað atvinnu að ákveðinni upphæð án þess að greiða af henni skatt, búið yrði til skattlaust þrep fyrir þennan aldurshóp. Mikill munur væri fyrir unglingana okkar ef að við hefðum aldraða sem flokksstjóra í unglingavinnu til að miðla kunnáttu til verka.