Þegar ég lít yfir farinn veg, eða frá því á vormánuðum árið 2002 skil ég ekkert í því hvernig þessi tími hefur liðið svona hratt, kjörtímabilið er rétt að klárast.
Að koma inn í bæjarmálin eins og ég gerði á þessum tíma óreynd með öllu í pólitík er ekki létt verk. Þegar maður kemur óreyndur inn í pólitík hjálpar það mikið að hafa víðtæka reynslu í félagsmálum. Ég hef allatíð verið félagsmálafrík, verið í stjórnum og ráðum á vegum félagasamtaka. Ég starfaði á mínum yngri árum með ungmennafélaginu Heklu á Hellu og ungmennafélagi Ásahrepps. Ég var í stjórn Hestamannafélagsins Sleipnis í mörg ár, sat í stjórn Rangárbakka sf. sem gjaldkeri og sem mótstjóri stórmóta á Gaddstaðaflötum. Ég gekk til liðs við ITC (áður Málfreyjur) 1992 og var í þeim félagskap í 11 ár, forseti deildar, í stjórn ráðsins og sem ráðs forseti. Starfaði í nefndum á vegum þessara félaga og tók þátt í skipulagningu á ráðstefnum og var ráðstefnustjóri. Þessi störf held ég að hafi hjálpað mér mjög mikið við að takast á við þau verkefni sem ég var kjörin til.
Bæjarmálin eru margþætt vinna, maður kemur að fjölda verkefna sem maður veit lítið um fyrr en maður hefur lesið sér til og leitað til sér reyndari manna. Ég var svo lánsöm að fá að taka að mér skólamálin í sveitarfélaginu, það hefur verið mér dýrmæt reynsla og einnig mjög skemmtileg. Auðvitað komum við öll að öllum málum en auðvitað mismikið. Meirihlutinn hefur unnið vel saman og skipt með sér verkefnum til að gera vinnuna léttari og reyna að dreifa álaginu á milli manna. Ég held raunverulega að nauðsynlegt sé að skipta með sér verkum til að hreinlega komast yfir öll þau verkefni sem bæjarfulltrúi í svo stóru sveitarfélagi vinnur í aukavinnu með fullu starfi annarsstaðar. Það hefur líka mikið að segja þegar kynjahlutföll eru eins og þau eru hjá okkur hér í Árborg, sjö karlar og tvær konur. Þegar skipað er í vinnuhópa og ýmis verkefni er mikilvægt að bæði kynin komi að og getur það reynst örðugt þegar kynjaskiptingin er svona. Starf bæjarfulltrúa er krefjandi en skemmtilegt en því miður eru ekki nægilega margir sem gefa kost á sér til þátttöku. Af hverju ætli það sé ? Ég hef velt því töluvert fyrir mér. Kannski vill fólk ekki taka allan þennan tíma frá fjölskyldu og vinum, eða finnst bara ágætt ef einhver annar gerir þetta ! En eitt er víst að ekki hefði ég viljað missa af þessu tækifæri sem íbúar Árborgar gáfu mér með því að kjósa mig til starfa. Reynslan og þekkingin sem ég hef fengið er ómetanleg til framtíðar litið. Ef þig langar að vera með sláðu þá til nú er tækifærið