desember 1st, 2005

Vímuefnanotkun unglinga í 8. -10. bekk í Árborg

 

Notkun á munn- og neftóbaki miklu meiri en annarsstaðar á landinu

Á síðasta skólanefndarfundi grunnskóla Árborgar kynnti Grímur Hergeirsson niðurstöður rannsóknar um vímuefnanotkum unglinga í 8. -10. bekk í Árborg sem lögð var fyrir í mars sl

 Þar kemur margt sláandi fram. T.d. hækkar hlutfall þeirra sem reykja hjá öllum árgögngum frá 2001 -2005, meðan hlutfallið lækkar á höfuðborgarsvæðinu og landinu í heild. Hlutfall í 10 bekk sem notuðu munntóbak þrisvar sinnum eða oftar sl. 30 daga er 22% meðan það er 6% á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfall í 10 bekk sem notaði neftóbak þrisvar sinnum eða oftar sl. 30 daga er 25% meðan höfuðborgarsvæðið er með 8% . Hér er verið að tala um bæði stráka og stelpur, 8% stúlkna í 10 bekk nota neftóbak 3 sinnum eða oftar sl. 30 daga. "Þetta eru athyglisverðar niðurstöður og valda áhyggjum hve stór hluti notar þessi vímuefni. Notkun á munn- og neftóbaki er miklu meira hér heldur en annarsstaðar á landinu og maður veltir fyrir sér af hverju það er. Einnig kemur fram að meðal 8. og 10. bekkjar á þessu tímabili hækkar hlutfall þeirra sem nota áfengi frá 2002 – 2005, meðan hlutfallið lækkar annarsstaðar. Og ef skoðað er hvar unglingarnir neyta þessara drykkja þá kemur það fram að 16,1% segjast neyta þess á skemmitstað eða á pöbb meðan 5,8% á höfuðborgarsvæðinu segja vera á slíkum stöðum. Þetta segir okkur það að hér er eitthvað í ólagi á veitingastöðum og hjá eftirlitsaðilum þar sem við erum að tala um börn á 16 ári", sagði Margrét Katrín Erlingsdóttir, formaður skólanefndar þegar hún var beðin um að gefa viðbrögð á niðurstöðu rannsóknarinnar. Og hún bætti við; " Það er auðvitað ánægjulegt að geta líka sagt að milli 85% og 95% ungmenna í 8 – 10 bekki í Árborg reykja ekki daglega. Við megum ekki gleyma okkur þar sem illa gengur og horfa ekki á það að yfirgnæfandi meirihluti ungmenna reykir ekki, notar ekki munn- eða neftóbak, drekkur ekki og notar ekki ólögleg vímuefni, og er til mikillar fyrirmyndar. En vissulega er okkur öllum íbúum þessa sveitarfélags vandi á höndum þar sem að of margir neyta þessara vímuefna, allir þurfa að taka saman höndum og sporna við neyslu þeirra", sagði Margrét.